17.3.2010 | 12:44
Loftræstikerfi geta snúist í andhverfu sína
Loftræstikerfi eiga að flytjaferskt loft inn þar, sem gluggar koma ekki að gagni. En gera þau það? Samkvæmt nýlegri úttekt Lagnafélags Íslands eru áhöld um það eins og kemur fram í Morgunblaðinu 2. marz síðastliðinn.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/03/02/litid_eftirlit_med_thvi_hvort_loftraestikerfin_virk
Loftræstikerfi þarf að hreinsa reglulega eða 2 var sinnum á ári. Sum kerfi eru aldrei hreinsuð. Það skiptir máli, að auðvelt sé að hreinsa lagnastokka og þá þarf bæði hönnun og smíði að vera vönduð. Það er ekki auðvelt að hreinsa kerfi, sem er með skarpar beygjur, mikið af börkum og aukatengjum.
En hvernig virka kerfin? Gera þau það, sem þeim er ætlað? Við hönnun kerfanna skal endað á að gera handbók lagnakerfa. Nokkur misbrestur er á, að þær séu gerðar og ef þær eru gerðar, þá með því að afrita handahófskennt gögn um hluta lagnakerfisins. Og það er undir hælinn lagt, hvort virkni kerfanna er prófuð. En skilyrðið fyrir, að hægt sé að virkniprófa, hlýtur að vera góð handbók.
En það þarf að þjónusta lagnakerfi og gera þjónustusamninga þar um. Það eru ekki margir, sem útbúa slíka þjónustusamninga hér á landi enda ekki rík hefð fyrir slíku. EglaRáðgjöf (eglaradgjof.is) heitir fyrirtæki, sem sérhæfir sig í gerð þjónustusamninga. Stjórnandi þess er Egill Þórðarson verkfræðingur og hefur hann langa reynslu af gerð þjónustusamninga á vegum Varnarliðsins heitins.
Auk þess eru til ýmis fyrirtæki, sem sérhæfa sig í að vinna eftir þjónustusamningum og eru mörg hver afar fagleg og með hæfa starfsmenn innanborðs. Þar má nefna Hitastýringu og fleiri aðila.
Egill Þórðarson verkfræðingur
9.7.2009 | 06:03
"Auk þess legg ég til, að Karþagóborg verði lögð í eyði."
Þessi frægu orð Cato hins gamla koma upp í hugann, þegar Jón Baldvin Hannibalsson fer mikinn á síðum Morgunblaðsins viku eftir viku. Úr penna (tölvu) hans kemur aldrei svo grein, að ekki sé rætt um inngöngu í ESB. Jón Baldvin er sanntrúaður Evrópusinni og einblínir á hagrænar stærðir eins og verð á landbúnaðarvörum og evruna til skamms tíma. Vissulega er staðan slæm núna, en hefði ekki verið betri þótt við hefðum verið með evru. Vissulega hafa orðið framfarir á ýmsum sviðum með þátttöku í EES, en það er byggt á viðskiptalegum grunni, þeas viðskiptasamningum milli sjálfstæðra þjóða. En ekki má blanda saman þjóðasamningum og ríkjasamböndum. Jón Baldvin skautar yfirleitt létt fram hjá þeirri staðreynd, að innganga Íslendinga í ESB þýðir afsal sjálfstæðis. Í raun eru það landráð að leggja til aðild Íslendinga að ESB, þótt í góðu skyni sé gert. Muna menn enn eftir Arne Treholt, Norðmanninum, sem gaf Rússum upplýsingar til að liðka fyrir samskiptum milli þjóðanna? Hann var dæmdur fyrir landráð.
Ég spyr Jón Baldvin Hannibalsson: Af hverju telur þú, að við höfum sótzt eftir fullveldi 1918? Af hverju heldurðu, að við höfum sett á stofn lýðveldi 1944? Ertu að segja, að allt starf Jóns Sigurðssonar forseta hafi verið til einskis? Telurðu, að innganga Íslendinga í ESB feli í sér afsal sjálfstæðis eða ekki og hvernig rökstyðurðu það?
Egill Þórðarson verkfræðingur
9.7.2009 | 05:58
Frá lýðveldi til sambandsríkis
Ég þjáist er heyri ég þingað um helsi
þjóðar sem enn á sitt stolt og sitt frelsi,
það er eins og sjáum við eintóma galla
í algjörri fegurð í blómkrónum valla
og greinum í hálffullum bikar og bolla
botninn á hálftómum spilkomuskolla.*)
EÞ
*)spilkoma=hankalaus kanna eða bolli
7.2.2009 | 13:32
Sjálfs er höndin hollust
Hver var tilgangurinn með stofnun lýðveldisins Íslands árið 1944? Höfðum við það ekki ágætt með sameiginlegan konung með Dönum? Við vorum með okkar eigin mynt, en áður var myntin sameiginleg með Dönum - dönsk króna. Danir voru okkur ekki slæmir, við vorum sjálfum okkur verstir. Hvað var þá að? Og af hverju viljum við nú sameinast öðrum ríkjum undir stjórn ESB?
Þegar ung manneskja kemur í heiminn, liggur hún ósjálfbjarga, horfir út í loftið og kreppir litlu hnefana. Svo líður tíminn hún fer að velta sér, skríða og loks að ganga. Þar kemur að unga manneskjan vill gera hlutina sjálf og segir: Ég vil sjálf(ur). Árin líða og unga manneskjan verður sjálfráða og lögráða - fullorðin og fullþroskuð og vill sjá um sín mál sjálf. Hún þarf engann tilsjónarmann og hefur fullt frelsi til að taka ákvarðanir um sitt líf. Unga manneskjan sér ekkert nema tækifæri og getur allt, þrátt fyrir hugsanlega lítil efni. Þannig var íslenzku þjóðinni varið árið1944.
Íslenzka þjóðin hafði barizt fyrir fullu sjálfstæði sínu í meira en 100 ár og fögnuðurinn var mikill. Á Þingvöllum voru mikil hátíðahöld, kórar sungu og ræður voru fluttar. Það rigndi mikið, en enginn lét það á sig fá. Allir glöddust heils hugar og draumarnir höfðu rætzt. Nú eru hins vegar þeir, sem fögnuðu á Þingvöllum, óðum að yfirgefa okkur, og skilja það eftir í okkar höndum. Við erfum landið, berum ábyrgð á því og þurfum að vernda og varðveita fyrir okkar börn og barnabörn.
Við þekkjum þjóð, sem fór öðru vísi að. Nýfundnaland-Labrador lenti í efnahagsvanda 1946-1949 og skuldaði meira en það gat greitt. Það endaði með því, að NL sameinaðist Kanada árið1949, fimm árum eftir að við stofnuðum lýðveldi. Nýfundnalandsþjóðin lítur til okkar með eftirsjá, þegar hún sér hve vel okkur hefur vegnað. Nú erum við í sömu stöðu og hún var fyrir 60 árum. Ætlum við að fela öðrum að sjá um okkar mál, s.s. fiskveiðastjórnum, olíuleit og efnahagsstjórn? Nýfundnalandsþjóðin býr við ölmusur frá sambandsstjórninni í formi styrkja, fiskveiðar hafa lagzt af og olíulindir í sjónum verða ekki í umsjá þjóðarinnar.
Nú segja ESB-sinnar, að við munum hafa mun meiri áhrif, ef við gerumst fullgildir aðilar. Það sama var sagt, þegar við gerðumst aðilar að EES. En hver hefur reyndin orðið. Alþingi okkar afgreiðir lög frá ESB í röðum athugasemdalaust og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Gjaldþrot. "Ísland er tæknilega séð gjaldþrota", sagði núverandi viðskiptaráðherra, þá dósent við Háskóla Íslands og fékk bágt fyrir frá stjórnarherrum. Ísland verður að forðast að lenda í sömu stöðu og Nýfundnaland-Labrador.
En þrátt fyrir þetta er bjart framundan. Landið er gjöfult og fiskimiðin fæða okkur. Fasteignirnar hafa ekki farið neitt, mikið af atvinnutækjum er í landinu og fólkið er hér enn - helzta auðlindin okkar. Eina vandamálið er rangar verðmerkingar á eignum, bæði eiginlegum og óeiginlegum. Heita vatnið streymir enn upp úr jörðinni, kalda vatnið er hreint og ótakmarkað og fossarnir gefa okkur rafmagn allt árið um kring. Álverin eru á sínum stað, þótt erfitt sé um þessar mundir hjá eigendum þeirra. Hugmyndaflugi okkar eru engar skorður settar og með okkar framkvæmdagleði munum við sigla undir fullum seglum út úr sortanum. Við höfum séð það svartara.
Góðar stundir.
27.1.2009 | 23:00
Úr öngum hugarbandsins
Í mig hleypur óyndi
í öllu þessu fári,
fjandans ári og andskoti
er nú þessi fjári.
En þegar neyðin nístir mest
nærri er hjálparstoðin,
við verðum bráðum fær í flest,
flytjast okkur boðin.
Helguvík og Bakkabú
bætast senn í hópinn nú,
Straumsvík hressir Hafnarfjörð,
um haginn okkar stendur vörð.
Þjórsárvirkjun þrenna tel,
það mun blessast okkur vel,
gagnaverin verða mörg
og vísast okkur mikil björg.
Okkur veitir vatnið hreint
velsæld áfram góða,
við fiskimiðin sveltum seint
er sjávarfangið bjóða.
Hveravatnið heita rís
úr heitum iðrum landsins
og þíðir kaldan andans ís
úr öngum hugarbandsins.
EÞ
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2009 | 11:21
Stjórn Seðlabankans og stjórnarskráin
Það var athyglisvert að sjá, hvað erlendir fjölmiðlar töldu hafa valdið stjórnarslitum Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það var að ennþá var sama stjórn í Seðlabankanum. Hvers vegna er þá verið að tala um ágreining um forsætisráðherrastólinn? Er það ef til vill vegna þess að Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðherrann og að það er eina leiðin til að setja stjórn bankans af að skipta um forsætisráðherra?
Stjórnmálamenn eru bjartsýnir um að geta breytt stjórnarskránni þannig, að hægt verði að kjósa um ESB-aðild í vor jafnframt því að taka á efnahagsmálum einstaklinga og fyrirtækja. Það er gott að vera bjartsýnn. Stjórnarskráin var ekki samin í neinni skyndingu, en rétt er að reyna að endurskoða hana á þessum skamma tíma og láta síðan breytingatillögurnar hvíla sig í sumar þar til þing kemur saman í haust. Margt kann að birtast okkur með nýjum hætti eftir sumarið og við fáum fleiri sjónarhorn. Vonandi fara menn ekki að reyna að gera hana svo skýra að hún lengist að mun, því að reynslan er sú, að því lengri sem stjórnarskrár eru því verri eru þær og lýðræði minna.
23.1.2009 | 22:06
Hvernig förum við að því að fá þing rofið sem fyrst?
Í 24. grein stjórnarskrárinnar segir: "Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags."
Hvað er hægt að gera til að forseti sjái sig knúinn til að rjúfa þing? Er ekki rétt að reyna undirskriftasöfnun? Hefur einhver skoðun á þessu?
20.1.2009 | 11:33
Eigum við að halda í sjálfstæðið eða ganga í ESB?
Ef Færeyingar spyrðu okkur álits um, hvort þeir ættu að sækjast eftir sjálfstæði, hverju ættum við að svara þeim? Hver var íbúatala Íslands 1800? Íslendingar voru 47.240 þá eða um það bil jafnmargir og Færeyingar eru núna.
Ef íbúar Nýfundnalands spyrðu okkur sömu spurningar, hverju ættum við að svara þeim? Hve margir eru íbúar Nýfundnalands og Labrador? Þeir eru um 500-600 þúsund á mun stærra svæði en Ísland eða 370 þús km².
Kæru landar mínir.
Við höfum notið fulls sjálfstæðis síðast liðin 64-65 ár eða frá 1944 til 2009. Frá 1918 til 1944 nutum við heimastjórnar, en árið 1874 fengum við eigin lög útgefin af konungi Danaveldis. Frá 1874 til 1944 eru 70 ár, en við hófum baráttu okkar fyrir sjálfstæði enn fyrr eða í raun með Fjölnismönnum og stofnanda Nýrra félagsrita 1841, Jóni Sigurðssyni. Með öðrum orðum hefur það tekið okkur um það bil eina öld að öðlast sjálfstæði.
Hve langan tíma tók það okkur að afsala okkur sjálfstæðinu í kringum árið 1262? Það gerðist ekki á einum degi og ekki einu ári. Það var ekki einu sinni að fullu afstaðið árið 1262, heldur liðu áratugir þar til við misstum sjálfstæði okkar að fullu. Það gerðist um leið og við misstum tök á efnahagsmálum okkar, sem var ekki fyrr en á næstu öld á eftir, 14. öldinni.
En hvernig var aðdragandinn að afsali sjálfstæðis okkar og hver var ástæðan? Þetta er erfið spurning segja menn, ef þeir vita ekki svarið og þannig er einnig varið um mig. Ég veit ekki svarið, en ég ætla að reyna að nálgast það í eftirfarandi umfjöllun.
Í ritröðinni Saga Íslands III. bindi frá 1978 birtu Sigurður Líndal prófessor og Björn Þorsteinsson ritið Lögfesting konungsvalds. Í inngangi eru tíundaðar ýmsar ástæður þess að Íslendingar sameinuðust norska ríkinu, en þar er þó fyrst og fremst rakinn aðdragandi þess og hinir ýmsu þræðir, sem tengdu saman Noreg og Ísland.
Meðal annars sótti kirkjuvaldið sína biskupa til Niðaróss og var háð Noregi á ýmsan annan hátt. Ýmsir helztu veraldlegu höfðingjar á Íslandi höfðu gerzt handgengnir Noregskonungi og voru hirðmenn hans. Það þýddi, að þeir höfðu unnið konungi hollustueiða og voru háðir honum. Margt fleira er tínt til í þessum afbragðsgóða kafla Sigurðar og Björns um aðdragandann.
En hin raunverulega ástæða kemur fram síðar í ritinu í kaflanum Noregskonungur hylltur. Þar eru rakin efnisatriði Gamla sáttmála og þótt hvergi sé til yngra afrit af honum en frá 16. öld eru þau trúlega rétt, þar eð um mikilvægasta skjal Íslendinga var að ræða.
Efni Gamla sáttmála.
Efni Gamla sáttmála er eftirfarandi:
1. Það er sammæli bænda fyrir norðan land og sunnan, að þeir játa ævinlega skatt herra Hákoni konungi og Magnúsi konungi, land og þegna með svörnum eiði, tuttugu álnir hver sá maður, sem þingfararkaupi á að gegna. Þetta fé skulu saman færa hreppstjórar og til skips og fá í hendur konungs umboðsmanni og vera þá úr ábyrgð um það fé.
2. Hér í mót skal konungur láta oss ná friði og íslenzkum lögum.
3. Skulu sex skip ganga af Noregi til Íslands tvö sumur hin næstu, en þaðan í frá sem konungi og hinum beztu bændum landsins þykir hentast landinu.
4. Erfðir skulu upp gefast í Noregi fyrir íslenzkum mönnum, hversu lengi sem þær hafa staðið, þegar réttir arfar koma til eða þeirra umboðsmenn.
5. Landaurar skulu upp gefast.
6. Slíkan rétt skulu íslenzki rmenn hafa í Noregi sem þá er þeir hafa beztan haft og þér hafið sjálfur boðið á yðrum bréfum og að halda friði yfir oss, svo sem guð gefur yður framast afl til.
7. Jarlinn viljum vér yfir oss hafa, meðan hann heldur trúnað við yður, en frið við oss.
8. Skulum vér og vorir arfar halda allan trúnað við yður, meðan þér og yðrir arfar halda við oss þessa sáttargjörð, en lausir, ef hún rýfst, að beztu manna yfirsýn.
Í fyrstu grein er fjallað um skyldur Íslendinga gagnvart Noregskonungi, en það eru þó miklu fremur greinar 2 8, sem vekja athygli.
Í grein 2 er talað um frið, en með Gamla sáttmála lýkur Sturlungaöld einum mesta ófriðartíma í Íslandssögunni. Enginn hefur getað tryggt frið fram að þessu og eina leiðin, sem menn sjá, er að fela það nýjum konungi.
Í 3. grein opinberast erfiðleikar í aðdráttum með skipum, en árin 1215 og 1243 lögðu Skúli jarl og Hákon konungur farbann á Ísland, þannig að með sáttmálanum virðast samgöngur tryggðar.
Í 4. grein endurspeglast efnahagsþvinganir Noregskonungs í því, að Íslendingar gátu ekki erft frændfólk sitt í Noregi fyrr en Gamli sáttmáli tók gildi.
Grein 5 tekur á skatti Noregskonungs á Íslendinga, sem fóru utan til Noregs. Með þessari grein er hann aflagður. Má leiða líkur að því, að hirðmenn konungs hafi notið ýmissa fríðinda, svo sem skattfrelsis eða jafnvel náð að erfa frændfólk og forfeður. Og því var það mjög algengt, að íslenzkir höfðingjar gerðust hirðmenn Noregskonungs.
Í 6. grein er hnykkt á réttindum Íslendinga, sem fram koma í 4. og 5. grein um skatta og erfðir, en með þessari grein er sett undir ýmsa aðra hugsanlega leka, þannig að þeir njóti allra þeirra réttinda, sem Norðmenn njóta í Noregi.
Grein 7 tryggir, að það sé einn æðsti valdsmaður staðsettur á Íslandi, en ef hann af einhverjum ástæðum nýtur ekki trausts Noregskonungs, missir hann völdin. Með þessu eru hindraðir frekari flokkadrættir og valdabarátta.
8. grein inniheldur möguleg uppsagnarákvæði, en þau eru fremur loðin rétt eins og grein 3 um skipakomurnar.
Hvað hefur Gamli sáttmáli að gera með ESB?
Í báðum tilvikum er beitt efnahagslegum þvingunum til að ná heildaryfirráðum færa fleiri svæði undir eitt valdsvið. Yfirlýst stefna ESB er að verða að einni stjórnskipulegri heild eins og kom fram í Mastricht-samkomulaginu, en það var reyndar fellt einmitt af þeirri ástæðu. Stjórnskipuleg heild hvað þýðir það? Það þýðir eitt sambandsríki með sameiginlegt þing, sameiginlega framkvæmdastjórn og sameiginlegan gjaldmiðil. Með öðrum orðum er um að ræða sjálfstætt sambandsríki, sem er efnahagslega sjálfstætt rétt eins og Kanada, Bandaríkin og fyrrverandi Sovétríkin.
En í hverju eru efnahagslegar þvinganir ESB fólgnar? Bezt þekkjum við ósk ESB um að fá yfirráð og stjórn fiskimiða okkar Íslendinga. Ýmsar undanþágur eru gerðar á réttindum okkar vegna þess að við tilheyrum EES, en við njótum þó ekki fullrar aðildar að ESB. Mörg ákvæði eru um, að ýmsar iðnaðarvörur skulu CE-merktar til að vera viðurkenndar, jafnvel þótt hliðstæðar bandarískar eða kínverskar vörur séu sízt lakari. Þetta hefur komið mjög skýrt í ljós við byggingu Alcoa-álversins í Reyðarfirði þar sem reynzt hefur nauðsynlegt að skipta út ýmsum tækjum út fyrir CE-merktan búnað. Má nefna þar rafvélar, stýringar, ljósabúnað o.s.frv. Þetta hefur skapað töluvert óhagræði og kostnað, sem er ekki öllum ljós. Ekki má gleyma gjaldmiðlinum. Skilyrði fyrir að sækja um að nota evru er að vera fullgildur aðili að ESB.
Nýfundnaland-Labrador.
En gerir nokkuð til, þótt við sameinumst ESB? Og er ekki einber gróði að því?
Nýfundnalandsmenn segja aðra sögu af sínum viðskiptum við Kanadamenn. Þar sannast hið fornkveðna: Sjálfs er höndin hollust. Um leið og Nýfundnaland hafði sameinast Kanada breyttust áherzlur og þær urðu heildrænar fyrir Kanada. Sjávarútvegurinn hætti að skipta eins miklu máli og áður. Erlendum þjóðum leiðst að veiða innan fiskveiðisvæða Nýfundnalands, þannig að rányrkja var stunduð þar áratugum saman og nú er svo komið, að þar er útvegur með öllu óarðbær. Helzta iðja fólks í gömlu fiskiþorpunum er núna að vera leiðsögumenn fyrir ferðamenn, sem koma að virða fyrir sér forna frægð og hlusta á sögur heimamanna.
Nýjar olíulindir eru hugsanlega í efnahagslögsögu Nýfundnalands, en þær verða nýttar í þágu sambandsstjórnarinnar, sem auðvitað fjármagnar rannsóknir, því að heimamenn hafa nú orðið ekki bolmagn til neins. Þeir eru orðnir ölmusumenn í eigin landi og það versta er, að þeir geta sjálfum sér um kennt. Nýfundnalandsmenn sameinuðust Kanada á árunum 1946-1949, fimm árum eftir að við Íslendingar stofnuðum okkar lýðveldi 1944.
Á árunum 1934 til 1949 stjórnaði sex manna ríkisstjórn með þrem fulltrúum frá Bretaveldi og þrem frá Nýfundnalandi. Ástæður þessa stjórnarforms voru efnahagsskuldbindingar, sem lögformleg stjórn hafði undirgengist, en réði ekki lengur við og því var þessi þrautalending valin. Að endingu var ákveðið að fela sambandsstjórn Kanada að fara með öll mál Nýfundnalands og Labradors.
Af ofansögðu sést, hve náin tengsl eru á milli efnahagslegs sjálfstæðis og formlegs sjálfstæðis. Ef annað hvort hverfur rýrnar hinn hluti sjálfstæðisins og því getur hvorugt án hins verið.
Heimildir:
- http://www.geocities.com/Yosemite/Rapids/3330/constitution/comm.htm
- Saga Íslands Lögfesting konungsvalds e. Sigurð Líndal og Björn Þorsteinsson, 1978.
Um bloggið
Egill Þórðarson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar